fbpx

Sérfræðiþjónusta Tröppu

Nýstofnað sérfræðitorg Tröppu hefur vakið verðskuldaða athygli. Sérfræðiþjónusta Tröppu er nýtt úrræði ætlað foreldrum, kennurum, leikskólakennurum og öðrum sem starfa í skólum og leikskólum og vinna með börnum. Vakni grunur um þroskafrávik hjá barni eða önnur vandamál sem þarfnast íhlutunar gefst færi á að fá tíma hjá viðeigandi sérfræðingi sem veitir ráðgjöf. Viðkomandi getur þá skráð sig inn á sérfræðitorgið, valið sérfræðing og bókað tíma með mjög stuttum fyrirvara. Þjónustan hefur mælst mjög vel fyrir og hafa fjölmargir nýtt sér hana. 

,,Með þessu móti höfum við stytt boðleiðir verulega” segir Tinna Sigurðardóttir, talmeinafræðingur og þróunarstjóri hjá Tröppu. ,,Flestir þeir sem ég hef hitt á torginu er foreldrar sem hafa áhyggjur af barninu sínu. Ráðgjöfin okkar nýtist þá vel þar sem áhyggjur eru til staðar en ekki endilega þörf á miklu inngripi öðru en góðri ráðgjöf til foreldra” segir Tinna. Hún bætir við að einnig geti ráðgjöf skipt sköpum þegar forráðamenn séu t.d. að bíða eftir t.d. talþjálfun eða ítarlegri greiningu, því það sé svo margt sem foreldrar og nærumhverfi barns geta komið til leiðar í framgangi mála. ,,Við erum mjög stolt af þessari nýju þjónustuleið hjá okkur sem á eftir að vaxa enn frekar. Það er engin þjónusta fólgin í að vísa fólki á biðlista, raunveruleg hjálp felst í góðu aðgengi að viðeigandi sérfræðingi” segirTinna.

Hægt er að fræðast meira um Sérfræðitorg Tröppu og bóka tíma hjá sérfræðingi hér.