Blogg

Fjöregg íslenska skólans

No comments

Ekki er hægt að lýsa vel samfélagbreytingum fram í tímann. Í raun er maðurinn frekar lélegur að spá fram í tímann. Líklega er þó hægt að spá að vegna yfirstandandi tæknibyltingar að það verði sérstaklega erfitt að spá fyrir um hvernig yngsta kynslóðin sem nú er að hefja skólagöngu sína, hvernig hún vinnur, hvernig samskipti þeirra verða eða fjölskyldugerð.  Við höfum hreinlega ekki hugmynd um hvaða störf bjóðast þeim né hvort eða hvernig nám þeirra mun nýtast þeim.

Umræðan um hvernig skólinn á að breytast í takt við þarfir framtíðar er ekki ný af nálinni og íhaldssemin mikil þegar hugmyndir um breytingar fara í framkvæmd. Það er gott að halda í það sem er þrautreynt og ítrekað prófað en það er heldur ekki gott að halda í viðteknar venjur án skýrra raka.  Skólinn endurspeglar þó miklu hraðar breytingar í samfélaginu en umræðan gefur til kynna. Kennararnir sjálfir koma með nýjar hugmyndir og skoðanir alla daga inn í skólann og sjá vel að kröfur til barna verða ólíkari með hverri kynslóð. Í grunninn er skólinn byggður með það að markmiði til að tryggja jöfn tækifæri allra, barna með sérþarfir, barna með sérgáfur, barna með erfiðan bakgrunn og barna sem lífið leikur við. Allir eiga að fá sama mikilvæga grunninn.

Skólaumræða á Íslandi er hávær, oft í fyrirsagnastíl, og margir bera miklar væntingar til nýs ráðherra, stefnumörkunar ráðuneytis og stofnana sem og sveitarfélaga.  Það vilja allir Íslendingar vera stoltir af skólakerfinu í landinu og það uppfylli markmið sín. Það brenna nú margir litlir eldar, að hluta til af því við vitum ekki hverju við viljum breyta en ekki síst vegna þess að við vitum ekki hvernig við ætlum að breyta því sem við viljum þó breyta. Við tölum óspart um snilli Finna, jafnvel annarra þjóða. Í þessu öllu saman gleymum við að ræða hvert fjöregg hins íslenska skóla er.

Hver er sérstaðan?

Íslendingar eru á erlendri grundu þessa dagana þekktir fyrir þrennt sem hægt er að segja að séu hluti af samfélagslegri gerð okkar. Framúrskarandi tónlist og menningarlíf, framúrskarandi íþróttastarf og framúrskarandi forvarnir í vímuefnum. Það sem er svo athyglisvert er að þessir þrír þættir eiga sér gríðarlega sterkan grunn í skóla- og æskulýðsstarfi um landið allt. Við höfum fjárfest fjármunum í þessa hluti þó alltaf megi gera betur. Það er óneitanlega gaman (í nokkurri einfeldni) að tengja þrjá mikilvæga grunnþætti skólastarfs, forvarnir, sköpun og lýðheilsu við fyrstu línur þessa pistils; framtíðarsamfélagsþegninn.

Mín skoðun er sú að sterkasti grunnur íslensks skóla sé nákvæmlega sá grunnur sem börnin okkar þurfa helst á að halda inn í þessa óljósu framtíð. Nú er ég ekki að leggja til að grundvallarfærni, í lestri og stærðfræði og öðrum bóklegum greinum þurfi að líða fyrir þennan grunn.  Miklu frekar að við ættum – í stað þess að skoða árangur fortíðarákvarðana annarra þjóða sem áhrifabreytu á árangur í dag á samfélagsþegninn sem stendur sig vel í núverandi kröfur atvinnulífs og samfélags – að styrkja (þessar) stoðir sem eru að öllum líkindum besti grunnurinn fyrir fjórðu iðnbyltinguna. Þar mun sköpun og gagnrýnin hugsun í heilbrigðum líkama vera grunnurinn.

Fyllum skólana af listamönnum og fagfólki í iðngreinum. Kvörtun ekki yfir skorti á kennurum heldur tengjum fleiri starfsgreinar inn í skólann. Tengjum saman sköpun og hefðbundnar bóknámsgreinar. Tengjum íþróttirnar enn sterkar við skólaeiningar en nú er gert og opnum skólahúsin fyrir íþróttafélögum, listasöfnum og tónlistarfólki.  Og öfugt. Fjárfestum í enn meira af mælingum um líðan og í stuðningi við börnin sem þurfa hjálp. Fjárfestum í þeim þáttum sem auka vellíðan og sköpunargáfu. Sameinum menningarmál og menntamál hjá ríki og sveitarfélögum til að það sé hindranalaust flæði lista og unga fólksins. Stökkvum yfir breytingar fyrir fortíðina og sýnum öðrum hvernig íslenska skólakerfið er tilbúið fyrir framtíðina. Einbeittum okkur að styrkja grunninn.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir

kristrunlindFjöregg íslenska skólans