Blogg

Ávísun á brotthvarf úr framhaldsskólum?

No comments

Vinur minn er 16 ára og nýbyrjaður í framhaldsskóla – hann telur dagana þar til hann fær bílpróf og eyðir þar af leiðandi tölvert af sínum tíma í að skoða bílaauglýsingar. Hann talar um hestöfl og dekkjastærðir og meðalhraða og síðan tekur við einhver runa um þýskt gæðastál og ryðvarnir – tungumál sem ég tengi afar lítið við.

Eftir góðan fyrirlestur um hvaða bíla væri eðlilegast að eiga – eftir aldri kyni og uppruna þá barst talið að skólanum. Vinur minn var nefnilega að fara í próf í íslensku. Forvitni mín var vakin – út á hvað skildi próf í íslensku 1. bekk í framhaldsskóla ganga? Þarna var hann að tala tungumál sem ég kannaðist við. Hann opnaði tölvuna sína og deildi með mér glærusýningunni sem hann átti að nota til að læra fyrir prófið.

Ég verð að segja að ég þurfti að lesa slæðurnar aftur og aftur til að trúa mínum eigin augum. Viðfangsefnið í íslensku í 1. bekk á viðskiptafræðibraut var nefnilega MÁLSAGA. Ég tek hér saman nokkrar af þeim spurningum sem átti að undirbúa sig fyrir að svara á prófi.

  • Hvað gerðist þegar indóevrópumenn komu?
  • Hverjir voru þjóðflokkar indóevrópumanna?
  • Keltneska  telst til indóevrópsku málaættarinnar ásamt tíu öðrum tungumálaættum., hverjum?
  • Hvaða heimildir eru til um frumnorrænu – elsta germanskt tungumál Norðurlanda?
  • Aðgreining Norðurlandamála frá öðrum germönskum málum nefndu dæmi. 

Það er skemmst frá því að segja að vinur minn fékk 3.9 á prófinu – ég kalla hann góðan. Prófið var krossapróf. Ég læt nokkrar myndir af glærunum fylgja – ég skora á ykkur að skoða.

 

Það sem ég sé er ávísun á brotthvarf – þetta er fullkomin leið til þess að fá nemendur til að hverfa frá námi. Námsefni sem þetta á heima á háskólastigi meðal háskólanema sem ætla sér að verða sérfræðingar í málvísindum.

Það er alveg sama hversu miklum tíma og peningum við eyðum í stoðkerfi framhaldsskólanna – við náum ekki árangri fyrr en við ræðum um það sem gerist í kennslustofunni og endurskoðum starfshætti og ræðum saman með gagnrýnum hætti hvað er viðeigandi í dag og hvað heyrir sögunni til. Með því að leggja gildrur sem þessar fyrir nemendur í 1. bekk í framhaldsskólanum eru við að brjóta á þeim lögum samkvæmt.

2.gr. Hlutverk. Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Framhaldsskólar búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Þeir skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til þekkingarleitar….

Nú langar okkur hjá Tröppu alveg óskaplega að hjálpa sem flestum kennurum að finna leiðir til þess að ná til nemenda og þess vegna ætla ég ekki að skilja við þessa litlu sögu án þess að koma með tillögu að leið til þess að koma til móts við alhliða þroska vinar míns  – þar sem færni hans í íslensku mun eflast í rituðu máli að minnsta kosti – jafnvel framsaga líka.

Vinur minn er nefnilega alls ekki laus við áhuga og ástríðu. Hann elskar bíla og allt sem þeim við kemur. Ég spurði hann hvort hann myndi vilja skipta á málsögu áfanganum og að gera 60 síðna ritgerð um þróun bílaiðnaðarins – og síðan næstu ritgerð um þróun bílaiðnaðarins í Asíu – OG síðan þriðju ritgerðina til að bera þróun bílaiðnaðar í Evrópu og Asíu saman. JÁ JÁ JÁ – sagði hann. Og – má ég gera Bandaríkin líka? Hann var líka til í að halda kynningu um þróun bílaframleiðslu í heiminum, á ensku og dönsku ef hann þyrfti – og til að kynna verkefnið fannst honum ekki mikið mál að vera með sýningabás og fá sem flesta í heimsókn.

I rest my case.

Kristrún Lind Birgisdóttir

Sérfræðingur í kennsluaðferðum og framkvæmdastjóri Tröppu ráðgjafar

 

kristrunlindÁvísun á brotthvarf úr framhaldsskólum?